Fjármálafyrirtæki

FS3 - ferlar til að fylgjast með innleiðingu viðskiptavina á og fylgni við umhverfis og samfélagsleg skilyrði í samningum eða viðskiptum

Hagfræðideild Landsbankans aflar á skipulegan máta upplýsinga um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.

Í fjárfestingum á vegum Eignastýringar fyrir hönd viðskiptavina Einkabankaþjónustu er unnið að innleiðingu á ábyrgum fjárfestingum í verklag við mat á fjárfestingarkostum með það í huga hvernig samfélagsábyrgð fléttast inn í ráðgjöf til viðskiptavina.

Stefna í sambandi við almenn atvinnugreinaviðmið í lánveitingum frá Fyrirtækjasviði bankans var samþykkt en vinna við innleiðingu verkferla hefst árið 2018.


Markmið

Samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.

FS8 - Vara og þjónusta sem ætlað er að framkalla umhverfislegan ávinning

Landsbankinn og Norræni fjárfestingarbankinn skrifuðu í ár undir nýjan lánasamning til sjö ára að fjárhæð 75 milljónir Bandaríkjadala, að jafnvirði um 7,8 milljarða króna. Landsbankinn mun endurlána fjárhæðina til lítilla og meðalstórra fyrirtækja og umhverfistengdra verkefna á Íslandi. Lánið verður notað til að fjármagna lítil og meðalstór fyrirtæki í ýmsum atvinnugreinum. Lánveitingaákvarðanir verða grundvallaðar á því hve vel verkefnin falla að því markmiði Norræna fjárfestingarbankans að efla samkeppnishæfni og stuðla að umhverfisvernd í aðildarríkjum bankans.

Þetta er annað lánið sem Norræni fjárfestingarbankinn veitir Landsbankanum. Fyrra lánið var veitt árið 2015 og hefur að fullu verið endurlánað í samræmi við stefnu Norræna fjárfestingarbankans.

Norræni fjárfestingarbankinn er alþjóðleg fjármálastofnun í eigu átta aðildarlanda: Danmerkur, Eistlands, Finnlands, Íslands, Lettlands, Litháen, Noregs og Svíþjóðar. Bankinn lánar til opinberra verkefna og einkaverkefna jafnt innan sem utan aðildarríkjanna. Norræni fjárfestingarbankinn fær hæstu mögulegu lánshæfiseinkunn, AAA/aaa, hjá leiðandi matsfyrirtækjunum S&P Global Ratings og Moody's.

Hjá Lanbankanum er í gildi skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu.

FS9 – Umfang og tíðni endurskoðunar og áhættumatsferlar

Áhættumat hjá Landsbankanum er skilgreint matsferli fyrir mat á rekstraráhættu. Öll svið gangast undir árlegt mat á rekstraráhættu. Afrakstur þessa mats er áhættumiðuð kortlagning rekstraráhættu á samstæðugrunni. Þar sem áhættustig er hærra en gildandi áhættuvilji bankans eru leiðréttingaraðgerðir og fyrirbyggjandi aðgerðir framkvæmdar og þeim fylgt eftir. Mat á rekstraráhættu nær til allra áhættuþátta rekstraráhættu, þ.m.t. þess að innri ferlar bregðist eða séu ófullnægjandi, mannlegra eða kerfislægra þátta eða utanaðkomandi atburða. Matsferlið er ekki sérhæft fyrir mat á framkvæmd umhverfis- eða samfélagsstefnu.

Innri endurskoðun er hluti af áhættustýringarramma bankans auk þess að vera hluti af eftirlitskerfi hans. Innri endurskoðun metur rekstrarskilvirkni bankans, fylgni við ytri og innri reglur og kynnir bankastjórn. Starfsemi Innri endurskoðunar nær til allra sviða, þ.m.t. rekstraráhættu og endurskoðunarferlisins. Alþjóðlega skoðunarstofan BSI fylgist með fylgni bankans við staðal ISO 27001 um upplýsingaöryggi. Þar að auki framkvæmir bankinn sjálfur reglulega ýmsar úttektir til að hafa eftirlit með fylgni við staðalinn. Ytri endurskoðendur bankans fylgja stöðluðu verklagi til öflunar endurskoðunargagna um samstæðureikningsskil bankans. Við það athugar endurskoðandinn innra eftirlit sem snertir tilreiðslu og sannferðuga framsetningu fyrirtækisins á reikningsskilunum.

FS12 – Atkvæðagreiðslustefna

Landsbankinn hefur ekki markað sér stefnu hvað varðar atkvæðagreiðslu um málefni samfélagsábyrgðar á aðalfundum fyrirtækja, þar sem bankinn fer með atkvæðarétt eða er ráðgefandi um atkvæðagreiðslu.


Almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Þær lausnir sem í boði eru batna stöðugt með bættri tækni og netlausnum.

FS13 – Aðgangur að bankaþjónustu

Almenn bankaþjónusta er að mestu orðin aðgengileg í sjálfsafgreiðslu. Viðskiptavinir Landsbankans hafa því aðgang að almennri bankaþjónustu allan sólarhringinn í gegnum hraðbanka, netbanka og farsímabankann L.is. Rafrænum lausnum fjölgar stöðugt og þær batna eftir því sem tækni og netlausnum fleygir fram.

Landsbankinn rekur víðfeðmasta hraðbankanetið á Íslandi en í árslok 2017 rak bankinn 80 hraðbanka á 73 stöðum víða um land. Landsbankinn hefur undanfarin ár fjölgað hraðbönkum af nýrri kynslóð en í þeim er bæði hægt að taka út og leggja inn reiðufé. Á haustmánuðum tók svo bankinn í notkun gjaldeyrishraðbanka í öllum útibúum á höfuðborgarsvæðinu.

Mikið er lagt upp úr öryggi í netbönkum Landsbankans og gekk Landsbankinn á árinu 2017 í samtökin Nordic Financial CERT, samtök norrænna fjármálafyrirtækja sem er ætlað að efla netöryggi og verjast glæpastarfsemi á netinu.

Lausnir, sem byggja á rafrænni auðkenningu viðskiptavina og rafrænu samþykki þeirra, eru í hraðri þróun. Þegar fram líða stundir munu slíkar lausnir bæta möguleika til rafrænnar þjónustu og sjálfsafgreiðslu viðskiptavina enn frekar, sem mun auka þægindi og bæta aðgengi að bankaþjónustu. Sem dæmi um lausnir má nefna að viðskiptavinir geta nú með einföldum hætti sjálfir dreift greiðslum á kreditkortareikningum í netbanka. Markvisst hefur verið unnið að því að kenna viðskiptavinum að nýta sér sjálfsafgreiðslu meira og bæta aðgengi að henni í útibúum bankans.

Landsbankinn leitar stöðugt nýrra tækifæra til að auka hagkvæmni í rekstri. Felur það m.a. í sér að breytingar verða á útibúum og afgreiðslum bankans, bæði varðandi staðsetningu og eðli starfseminnar á ólíkum stöðum. Leitast er við að breytingar á útibúaneti haldist í hendur við tækniframfarir og aukna möguleika viðskiptavina til sjálfsafgreiðslu. Þessum breytingum er til lengri tíma ætlað að auka þægindi viðskiptavina og að spara þeim tíma, fé og fyrirhöfn við að sækja bankaþjónustu. Breytingarnar hafa bæði snert starfsemi bankans á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu.

Í ársbyrjun 2017 var útibúinu í Þorlákshöfn breytt í afgreiðslu sem heyrir undir útibúið á Selfossi. Þessi breyting er gerð í hagræðingarskyni en hefur lítil sem engin áhrif á viðskiptavini bankans eða þá þjónustu sem er í boði. Á árinu 2017 voru gerðar breytingar á útibúum bankans í Borgartúni og Austurstræti. Það sem helst einkennir breytingarnar er að hraðbönkum, nettengdum tölvum og öðrum sjálfsafgreiðslulausnum var fjölgað verulega.

Nánari upplýsingar um útibú bankans, afgreiðslur og þjónustuheimsóknir er að finna á heimasíðu bankans.

Þjónustuheimsóknir
Suðurland Dvalarheimili aldraðra á Selfossi og Kirkjuhvoll á Hvolsvelli, einu sinni í viku.
Vestfirðir Þingeyri, Tálknafjörður, Reykhólahreppur og Dvalarheimilið Hlíf á Ísafirði, einu sinni í viku, og Súðavík, aðra hverja viku.
Austurland Fáskrúðsfjörður og Stöðvarfjörður, einu sinni í mánuði.

FS 14 – Sértæk þjónusta við viðskiptavini

Til viðbótar við sjálfsafgreiðslulausnir og þjónustu útibúa og afgreiðslna bankans heldur Landsbankinn úti þjónustuheimsóknum, viðskiptavinum til þæginda. Þá hefur bankinn leitað nýrra leiða til að tryggja viðskiptavinum aðgengi að ákveðnum þáttum bankaþjónustu, t.d. með samningum um reiðufjárúttektir við verslanir. Í þessu samhengi er horft til sérstakra þarfa eða aðstöðu viðskiptavina, t.d. fjarlægðar frá næsta afgreiðslustað, samgangna og til sérstöðu ákveðinna hópa viðskiptavina, t.d. eldri borgara og þeirra sem ekki eiga hægt um vik með að sækja þjónustu á næsta afgreiðslustað bankans.