Útgáfa

Landsbankinn gefur út mikið af áhugaverðu efni sem tengist fjármálum, starfsemi bankans og breytingum í samfélaginu. Á árinu 2017 gaf bankinn t.d. út viðamikil veftímarit um verslun og þjónustu annars vegar og ferðaþjónustu hins vegar. Efnið var birt á Umræðu Landsbankans sem var valin besta efnis- og fréttaveitan á Íslensku vefverðlaununum 2017.

Umræðan

Umræða Landsbankans er metnaðarfullt vefsvæði þar sem birtar eru áhugaverðar greinar um fjölbreytt efni, bæði um það sem er efst á baugi í fjármálaheiminum en einnig málefni sem tengjast breytingum í samfélaginu. Vefurinn hefur skýra vísun í hlutverk bankans sem hreyfiafl í íslensku samfélagi.

Umræðan opnaði í nóvember 2016 og var vefurinn valinn besta efnis- og fréttaveitan á verðlaunahátíð Íslensku vefverðlaunanna í janúar 2017.

Við framsetningu efnis er notast við texta, ljósmyndir, myndbönd og tölulegt efni. Á árinu 2017 hefur áherslan á gerð myndbanda aukist, jafnt viðtöl við sérfræðinga og álitsgjafa, fræðandi yfirlits- og kynningarmyndbönd, auk skemmtilegra hugleiðinga í myndbandaformi.

Íslensku vefverðlaunin


Sum málefnin sem fjallað er um á Umræðunni eru samfélagstengd og tengjast ekki starfsemi bankans með beinum hætti, t.d. greinar og myndbönd um gleðigöngu Hinsegin daga, björgunar- og slysavarnastarf á Íslandi, íslensku rappsenunaframtíðarkvikmyndir og kvennaknattspyrnu, meðan aðrar fjalla um þróun mála í banka- og fjármálageiranum, t.d. greinar um persónuverndkosti eignadreifingar og fasteignamarkaðinn.

Metnaðarfull greinaröð um netöryggismál birtist á Umræðunni í apríl þar sem sérfræðingar bankans fjölluðu um ýmsar hliðar þess málaflokks, t.d. framtíð auðkenningar, öryggi í netverslunvefveiðar og ýmislegt fleira. Á undanförnum árum hefur tilraunum til fjársvika á netinu fjölgað umtalsvert og Landsbankanum er mikið í mun að vara viðskiptavini sína og aðra við hættum sem af þeim stafa. Hluti af greinaröðinni var upplýsingamyndband þar sem varað var við einni tiltekinni tegund netsvika, fyrirmælafölsunum, með aðgengilegum hætti. Einnig hefur talsvert verið fjallað um ábyrgar fjárfestingar á Umræðunni.

Fjögur efnissvið

  • Samfélagið - Áhugaverðar greinar og viðtöl um nýjungar og breytingar sem eiga sér stað í samfélaginu, í fjármálaheiminum og í starfsemi Landsbankans
  • Efnahagsmál - Greinar og rannsóknir um efnahagsmál frá Hagfræðideild Landsbankans
  • Ráðstefnur - Fjölbreytt efni frá ráðstefnum og fundum bankans
  • Fjárhagur - Styttri fræðslugreinar þar sem starfsfólk Landsbankans miðlar af þekkingu sinni og reynslu um málefni er snerta fjármál heimilisins og efnahagsmál

Hagspá Hagfræðideildar og greiningar deildarinnar á ákveðnum geirum hagkerfisins birtast nú eingöngu á Umræðunni.

Umfangsmikil vefsvæði hafa verið sett upp í tilefni af stærri útgáfum Hagfræðideildar bankans. Hagspá Hagfræðideildar og greiningar deildarinnar á ákveðnum geirum hagkerfisins birtast nú eingöngu á Umræðunni. Má þar nefna ítarleg vefsvæði um verslun og þjónustu sem birt var í mars annars vegar og ferðaþjónustu sem birt var í september hins vegar. Á vefsvæðunum er notast við gagnvirk gröf, myndbönd, ljósmyndir og viðtöl við hagsmunaaðila í atvinnulífinu sem styðja með áhugaverðum hætti við texta greininganna. Á Umræðunni má einnig finna upptökur, glærur og annað efni frá ráðstefnum á vegum bankans.

Hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans birtist einnig á Umræðunni en það eru reglulegir pistlar um stöðu efnahagsmála, ríkisfjármála, um fasteignamarkaðinn, verðbólguhorfur og margt fleira. Í Vikubyrjun birtast upplýsingar um stöðuna á mörkuðum, vikan sem leið er gerð upp og sagt er frá því sem framundan er á sviði efnahagsmála, birtingu á hagtölum, uppgjörum o.s.frv.

Hjá Hagfræðideild Landsbankans á sér stað öflug rannsóknar- og greiningarvinna á þróun efnahagsmála og gegnir deildin lykilhlutverki við að móta sýn bankans á þróun og horfur í efnahagslífinu, innanlands og utan.

Hagfræðideildin gaf út 382 greiningar árið 2017

Deildin gefur út þjóðhags- og verðbólguspár, auk þess að sinna atvinnuvegagreiningum og öðrum sérhæfðari verkefnum. Einnig annast hún greiningu og verðmat á skráðum félögum á markaði.

Alls sendi Hagfræðideild frá sér 382 greiningar árið 2017, auk þess að standa fyrir fjölda kynningarfunda og viðburða tengdum efnahagsmálum á árinu. Hagfræðideildin gerði m.a. ítarlega úttekt á stöðu og horfum í íslenskri verslun og ferðaþjónustu á Íslandi. Í kjölfar kynningar Landsbankans á hagspá Hagfræðideildar í Hörpu í nóvember sl. var Þjóðhagur, ársrit deildarinnar, gefið út á Umræðunni. Um er að ræða ítarlegar greinar um ólíka þætti efnahagslífsins á Íslandi og í heiminum öllum. Myndbönd með viðtölum við sérfræðinga Hagfræðideildar birtust einnig á Umræðunni, sem og á Facebook-síðu bankans. Iðulega er vitnað í sérfræðinga Hagfræðideildar og greiningar þeirra í fjölmiðlum og þeir fara reglulega í fjölmiðlaviðtöl, í samræmi við stefnu bankans um að vera virkur þátttakandi í samfélaginu.

Útgáfur Hagfræðideildar
Þjóðhagsgreiningar, skuldabréf og gjaldeyrismarkaður
Þjóðhagur og sérrit 4
Hagsjá 119
Vikubyrjun 49
Yfirlit yfir gjaldeyrismarkað 12
Mánaðaryfirlit sértryggðra skuldabréfa 12
   196
   
Hlutabréf
Afkomuspár 52
Viðbrögð við afkomu 43
Verðmat fyrirtækja 16
Mánaðaryfirlit hlutabréfa 12
Sérrit 15
Hluthafalisti 48
   186
   
Útgáfur á ensku 54

Á árinu 2017 stóð bankinn m.a. fyrir stórri ráðstefnu um stöðu og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi og árlegri ráðstefnu þar sem Hagfræðideild Landsbankans kynnti nýja hagspá til næstu þriggja ára.

Ráðstefnur og fundir

Á hverju ári stendur Landsbankinn fyrir fjölbreyttum ráðstefnum og fundum og gefur út ýmis sérrit og greiningar um efnahagsmál og atvinnulífið. Á árinu 2017 stóð bankinn m.a. fyrir stórri ráðstefnu um stöðu og horfur í ferðaþjónustu á Íslandi og árlegri ráðstefnu þar sem Hagfræðideild Landsbankans kynnti nýja hagspá til næstu þriggja ára. Á síðarnefndu ráðstefnunni var einnig fjallað um áhrif fasteignaverðs á stöðugleikann og Simon McGeary, framkvæmdastjóri hjá Citigroup, ræddi um arðgreiðslugetu banka og fjármagnsskipan þeirra í ljósi breytinga á alþjóðlegu regluverki fjármálafyrirtækja.

Undir liðnum Ráðstefnur á Umræðu Landsbankans birtast upptökur, glærur og annað efni frá ráðstefnunum sem eru ávallt mjög vel sóttar. Áhersla er lögð á að efnið á vefnum sé sem ítarlegast og aðgengilegast fyrir alla.

Að auki voru haldnir minni fundir víða um land þar sem meðal annars var fjallað um sparnað, mikilvægi eignadreifingar, fjárfestingartækifæri erlendis í kjölfar afléttingar gjaldeyrishafta og fyrstu fasteignakaup. Í tengslum við Hagspá Landsbankans voru haldnir fundir í Reykjanesbæ og á Akureyri.

Sérfræðingar Landsbankans taka einnig virkan þátt í fjölda annarra ráðstefna, s.s. Íslensku sjávarútvegssýningunni og stórri ráðstefnu Samtaka verslunar og þjónustu, þar sem ítarleg greining Hagfræðideildar á stöðu íslenskrar verslunar var kynnt.