Jafnrétti og samgöngusamningar

Í Landsbankanum er lögð áhersla á að tryggja launajafnrétti og jöfn starfstækifæri. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns um sig í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki jafnlaunaúttektar PwC árið 2015 og svo aftur 2016.

Árið 2017 samþykkti Alþingi lög um jafnlaunavottun sem tóku gildi 1. janúar 2018. Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði. Undirbúningur vottunarferlis er hafinn innan bankans og miðar sú vinna að því að Landsbankinn öðlist vottun á árinu 2018. Jafnréttisstefna Landsbankans og aðgerðaáætlun stefnunnar er til skoðunar og endurmats, meðal annars með hliðsjón af þeirri vitundarvakningu sem frásagnir #metoo hafa komið til leiðar. Sjá nánari umfjöllun um #metoo og jafnrétti í kaflanum Álitamál í þessari skýrslu.

Landsbankinn hefur unnið markvisst að jafnréttismálum í gegnum tíðina og birt eigin greiningar á launum kynjanna. Það er skýrt í starfsemi bankans að karlar og konur skuli hafa jafna möguleika til starfsframa, njóta sömu réttinda í starfi og að konum og körlum skuli greidd sömu laun fyrir jafn verðmæt störf. Þá líðast hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni í bankanum.

Jafnréttisáætlun Landsbankans miðar að því að allir séu jafn réttháir, án mismununar á grundvelli kyns, kyngervis, kynvitundar, kynhneigðar, aldurs, fötlunar, heilsufars, þjóðernis, kynþáttar, litarháttar, uppruna, trúarbragða, skoðana, menningar eða stöðu að öðru leyti, enda lítilsvirðir og misbýður slík mismunun þeim einstaklingi eða hópi sem fyrir henni verður.

Kynjahlutfall - heild

Meginatriði jafnréttisstefnunnar

  • Í Landsbankanum eiga karlar og konur jafna möguleika til starfa og stjórnarsetu
  • Landsbankinn stefnir að jöfnu hlutfalli kynja meðal starfsmanna bankans og forðast að skilgreina störf sem karla- eða kvennastörf
  • Landsbankinn greiðir körlum og konum sömu laun fyrir jafnverðmæt störf
  • Landsbankinn leggur áherslu á að starfsmenn geti samræmt vinnu sína og einkalíf
  • Landsbankinn gætir þess að bæði kynin hafi jöfn tækifæri til starfsþróunar, náms og fræðslu
  • Í Landsbankanum líðst hvorki einelti, fordómar né kynbundin eða kynferðisleg áreitni

Hlutfall starfsmanna með samgöngusamning

41%

Fleiri samgöngusamningar

Með samgöngusamningum vill Landsbankinn fjölga valmöguleikum starfsmanna hvað varðar samgöngur svo þeir geti nýtt sér þann ferðamáta sem best hentar hverju sinni; notað vistvænan ferðamáta almennt en einnig haft aðgang að bíl þegar þess er þörf.

Í lok árs 2017 voru 446 starfsmenn með virka samgöngusamninga, eða 41% af heildarfjölda starfsmanna. Af þeim sem eru með virka samgöngusamninga eru 265 konur, eða 59,42%, og 181 karl sem er sambærilegt við hlutfall kynjanna í starfsliði bankans. Aukning á samningum milli áranna 2016 og 2017 er 5,2%.

Í samgöngusamningi felst að starfsmenn skuldbinda sig til að nýta annan ferðamáta en einkabílinn vegna ferða til og frá vinnu í 60% tilvika. Bankinn endurgreiðir útlagðan kostnað, allt að 90.000 kr. á ári eða 7.500 kr. mánaðarlega.