Samfélag

Viðskiptavinurinn

PR5 – Ánægja viðskiptavina

Gallup mælir ímynd Landsbankans og tengsl við viðskiptavini fjórum sinnum á ári. Viðskiptavinir bankans svara m.a. spurningum um ánægju, traust, hvort bankinn starfi af heilindum og hvort viðskiptavinir séu stoltir af bankanum. Rannsóknin, sem kallast CE11, skilar af sér stuðli sem endurspeglar þetta allt á kvarðanum 1-5 og hefur þetta verið mælt frá árinu 2007. Enginn banki mældist hærri en Landsbankinn í lok árs 2017. Þá fékk bankinn einkunnina 3,7 og hefur ekki mælst svo hár frá því fyrir hrun. Í sömu rannsókn kom fram að viðskiptavinir Landsbankans eru þeir ánægðustu á bankamarkaði með einkunnina 3,9 á sama kvarða.

Viðskiptavinir Landsbankans eru þeir ánægðustu á bankamarkaði samkvæmt CE11 rannsókn Gallup.
CE 11 niðurstöður - Landsbankinn

Markmið:

Leysa kvörtunarmál innan 7 daga.

PR6 – Sala á bannaðri eða umdeildri vöru og siðareglur

Í siðasáttmála Landsbankans er kveðið á um að starfsfólk sýni fagmennsku og heiðarleika með því að leita upplýsinga og fylgja lögum, reglum, viðurkenndum starfsháttum, siðareglum og öðrum viðmiðum sem eiga við störf þess hverju sinni. Auk þess að lúta almennum lögum um neytendavernd og markaðssetningu, fylgir það starfsfólk bankans sem sinnir markaðssetningu leiðbeinandi siðareglum Sambands íslenskra auglýsingastofa (SÍA) og leiðbeinandi reglum talsmanns neytenda og umboðsmanns barna um markaðssókn til barna. Landsbankinn tekur enn fremur tillit til reglugerðar um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, nr. 995/2007, en tilgangur reglugerðarinnar er að tryggja að upplýsingar um fjárfestingarsjóði séu skýrt og rétt fram settar. Engar athugasemdir eða kærur hafa borist á árinu.

PR8 – Fjöldi ábendinga/kvartana vegna trúnaðarbrota

Á árinu 2017 voru samtals skráðar 1.505 kvartanir og er það töluverð lækkun skráðra kvartana frá árinu 2016, en skráðar kvartanir þá voru 1.807 talsins. Flestar kvartanir bárust á fyrsta ársfjórðungi, eða samtals 617 kvartanir. Kvartanir dreifast nokkuð jafnt yfir aðra ársfjórðunga ársins.

Eðli kvartana var heldur fjölbreytt en helst má nefna kvartanir í tengslum við vörur bankans (28%) og þjónustu (26%). Meirihluti kvartana eiga uppruna sinn hjá viðskiptavinum (93%) og algengast er að skráðar kvartanir berist í gegnum síma (62%). Vert er að nefna að meðal þess sem stóð upp úr á árinu var innleiðing snertilausra greiðslukorta og miklar kerfisbreytingar en skráðar kvartanir endurspegla þessa þætti.

Markmið Landsbankans er að leysa úr kvörtunum innan 7 daga. Þau mál sem ekki er hægt að leysa í kvartanaþjónustu og teljast alvarleg eru send áfram til Rekstraráhættu, en slík mál voru 12 talsins árið 2017, sem er fækkun um þrjú frá árinu áður. 

Skipting kvartana eftir eðli máls

Mannauður

Mannauðsdeild bankans ber ábyrgð á mannauðs- og fræðslumálum. Helstu upplýsingar um mannauðsmál, jafnréttismál, starfskjör og hlunnindi, starfsþróun og stefnu bankans má finna á vef bankans. Drög að uppfærslu jafnréttisstefnu voru útbúin á árinu en það á eftir að leggja þau fyrir bankaráð. Upplýsingar um starfsmannafjölda eru á samstæðugrundvelli.

LA1 – Aldursdreifing og starfsmannavelta

Í árslok störfuðu 1.042 starfsmenn í 997 stöðugildum í Landsbankanum, Landsbréfum og öðrum dótturfélögum. Þar af eru 54% með háskólamenntun.

Af nýráðningum voru 46% karlar og 54% konur.

Lausráðnir starfsmenn eru þeir sem eru að hefja störf hjá Landsbankanum en þeir fá fastráðningu eftir þrjá til sex mánuði. Árið 2017 hætti einn lausráðinn starfsmaður áður en til fastráðningar kom.

Starfsmannaveltan á árinu 2017 var 7,5% í samanburði við 10% árið 2016.

Heildarstarfsmannafjöldi eftir aldri í árslok 2017
Nýráðnir starfsmenn í árslok 2017 - aldur
Nýráðnir starfsmenn í árslok 2017 - kyn

LA2 – Hlunnindi starfsmanna

Starfsmenn Landsbankans njóta hlunninda samkvæmt kjarasamningi SSF og SA, hjá Félagi starfsmanna Landsbankans (FSLÍ) og Landsbankanum hf. Kjörin eru mismunandi eftir því hvort starfsmenn eru lausráðnir eða fastráðnir. Í sumum tilfellum geta lausráðnir starfsmenn notið sömu kjara og fastráðnir starfsmenn.

Allir starfsmenn, jafnt fastráðnir sem lausráðnir, njóta aðgangs að trúnaðarlækni, hádegisverði, slysatryggingu, foreldra- og fæðingarorlofi og sjúkrasjóði.

Allir fastráðnir starfsmenn eru líftryggðir, fá örorkustyrk ef svo ber undir og fá greiddan að hluta mismun á launum og greiðslum frá fæðingarorlofssjóði.

Auk ofangreinds njóta starfsmenn ýmissa fríðinda eins og aðgangs að orlofshúsum, íþróttastyrkja, samgöngustyrks, námsstyrkja og tómstundastyrkja. Nánari upplýsingar um fríðindi, sem standa starfsmönnum til boða, er að finna ávefsíðu bankans.

LA3 – Fæðingarorlof

Konum, sem tóku fæðingarorlof, fækkaði um 34% frá fyrra ári á meðan körlum fækkaði um 3%. Konur tóku töluvert færri vikur að meðaltali í fæðingarorlof árið 2017 samanborið við síðustu ár og á meðan heldur fæðingarorlof karla áfram að styttast frá ári til árs. Starfsmenn af báðum kynjum taka frekar fæðingarorlof yfir sumarmánuðina.

Þrír starfsmenn, allt konur, kusu að koma ekki aftur til vinnu eftir fæðingarorlof.

Starfsmenn í fæðingarorlofi 2013 2014 2015 2016 2017 Breyting frá 2016
Meðalfjöldi kvenna í fæðingarorlofi 24 16 17 16 11 -34%
Meðalfjöldi karla í fæðingarorlofi 9 8 7 6 6 -3%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - konur 42 56 59 58 37 -36%
Meðalfjöldi vikna í fæðingarorlofi - karlar 27 20 17 16 14 -11%

LA4 – Lágmarksuppsagnarfrestur

Almennur uppsagnarfrestur starfsmanna er eftirfarandi:

Lausráðnir starfsmenn – 2 mánuðir.

Fastráðnir starfsmenn – 3 mánuðir.

Fastráðnir starfsmenn með yfir 10 ára starfsreynslu í fjármálafyrirtæki eða a.m.k. 45 ára lífaldur – 6 mánuðir.

LA6 – Fjöldi veikindadaga

Veikindaréttindi starfsmanna fjármálafyrirtækja eru nokkuð víðtæk. Þau eru tengd starfsaldri, miðast við 12 mánaða tímabil og eru eftirfarandi:

Lausráðnir starfsmenn eiga rétt á fullum launum í 30 daga og ½ launum í 30 daga.

Fyrir fastráðna er veikindaréttur 3 mánuðir á fullum launum og 3 mánuðir á ½ launum.

Eftir 10 ár í starfi er rétturinn 4 mánuðir á fullum launum og 4 mánuðir á ½ launum.

Eftir 15 ár í starfi er rétturinn 6 mánuðir á fullum launum og 6 mánuðir á ½ launum.

Eftir 20 ár í starfi er rétturinn 12 mánuðir á óskertum launum.

Starfstengdir sjúkdómar eru ekki skráðir sérstaklega í bankanum. Oftast er um stoðkerfisvandamál að ræða sem gætu einnig tengst öðru en vinnuumhverfi.

Meðalfjöldi veikindadaga starfsmanna var 6,2 dagar árið 2017 á móti 7,7 dögum árið 2016. Meðalfjöldi fjarvistardaga vegna veikinda barna var einn dagur árið 2017 sem er sami meðalfjöldi og árið 2016.

LA9 – Meðalfjöldi fræðslustunda

Fræðsla 2017

Það er stefna Landsbankans að hjá bankanum starfi hæft, metnaðarfullt og ánægt starfsfólk. Í fræðslustarfi bankans er lögð áhersla á að bjóða upp á fjölbreytta og markvissa fræðslu og þjálfun sem tryggir starfsfólki nauðsynlega þekkingu og hæfni til að ná árangri í starfi. Áhersla er lögð á að efla einstaklinginn og starfsmenn eru hvattir til að sækja nám og fræðslu utan bankans eftir því sem við á.

Umfangsmikil fræðsludagskrá stendur til boða á hverju ári og er starfsfólk duglegt að nýta sér framboðið. Fræðslustarfið tekur mið af áherslum í starfi bankans á hverjum tíma og er markvisst horft til þess að framboð símenntunar fyrir starfsmenn færi Landsbankann nær markmiðum sínum.

Fræðslustarfið í tölum

Hjá Landsbankanum býðst starfsfólki að sækja fjölbreytta fræðsludagskrá. Árið 2017 var boðið upp á 170 viðburði og þátttakendur voru um 3300. Hver starfsmaður bankans sótti að meðaltali ríflega 3 viðburði í fræðsludagskránni. Efni fræðsluviðburða dreifist nokkuð jafnt en efnisflokkarnir Vörur og þjónusta og Kerfi og forrit voru fyrirferðamestu efnisflokkarnir í fræðslustarfinu 2017.

Ástundun fræðslu

84% starfsmanna sóttu sér starfstengda símenntun árið 2017 á vegum bankans.

Meðalfjöldi fræðslustunda á hvert stöðugildi á árinu 2017 var 10,5 klukkustundir. Meðalfjöldinn er nokkuð misjafn milli sviða, lægstur á Mörkuðum og Fyrirtækjasviði (6 klst.) og hæstur hjá Bankastjórn og útibúum úti á landi (15 klst.). Fjöldi fræðslustunda tekur bæði til atburða sem starfsmenn sækja innan bankans og fræðslu sem sótt er utanhúss á kostnað bankans.

Meðalfjöldi fræðslustunda eftir sviðum
Fræðsluviðburðir eftir efni 2017
Þátttaka starfsfólks í símenntun árið 2017

Jafnrétti til símenntunar

Meðalfjöldi fræðslustunda eftir starfsheiti og kyni

Hjá Landsbankanum er lögð áhersla á að konur og karlar í sömu störfum hafi sömu tækifæri til þátttöku í fræðslu. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá meðalfjölda fræðslustunda eftir starfsheiti og kyni. Lítill munur er á fjölda fræðslustunda kynjanna. Karlar hafa þó sótt fræðslu í sem nemur 2 klst. umfram konur.

Kynjamunur á meðalfjölda fræðslustunda eftir starfsheiti er á bilinu 1–10 klst. Mestur er munurinn hjá sérfræðingum í framlínu þar sem konur sækja meiri fræðslu en karlar sem nemur 10 klst. Einnig sækja konur í stöðum millistjórnenda í höfuðstöðvum meiri fræðslu en karlar í sömu stöðum eða sem nemur 5 klst. Karlstjórnendur í útibúum sækja ívið meiri fræðslu en kvenstjórnendur en þar munar á bilinu 2-4 klst.

Meðalfjöldi fræðslustunda starfsmanna 2017 - eftir starfsheiti og kyni

Hvatning til að læra og miðla

  • Skýrar þekkingarkröfur og námsferli
  • Fjölbreyttar leiðir til að læra
  • Snjallfræðsla, það er fræðsla sem er aðgengileg í snjalltækjum
  • Aðlaðandi framsetning fræðslu
  • Hvatning og stuðningur til að læra
  • Góð yfirsýn yfir þekkingu og nám

LA10 – Þekkingarþróun, símenntun og starfslok

Lærum og miðlum - lærdómsmenning

Ýmsir þættir í starfsumhverfi Landsbankans kalla á breytta nálgun að starfsþróun og fræðslu. Má þar t.d. nefna aukna tæknivæðingu starfa og breytingar á lagaumhverfi fjármálafyrirtækja. Nýjar kynslóðir koma inn á vinnumarkaðinn og aldrei hafa staðið til boða jafn fjölbreyttar leiðir til að læra og miðla.

Árið 2017 hefur verið unnið markvisst að því hjá Landsbankanum að endurskoða fræðslustarfið og búa til lærdómsmenningu sem tekur mið af þeirri þróun sem er að eiga sér stað. Yfirskrift verkefnisins er Lærum og miðlum og það miðar að því að skapa starfsumhverfi sem hvetur fólk enn frekar til þess að taka ábyrgð á eigin þekkingu og miðla henni til samstarfsmanna.


Meginverkefni tengd fræðslustarfi árið 2017 hafa verið

  • Nýting á Workplace sem vettvangi til að læra og miðla
  • Könnun á lærdómsmenningu bankans vorið 2017
  • Samtal við stjórnendur um mikilvægi hvatningar til að læra og miðla
  • Aukið framboð rafrænnar fræðslu
  • Fjölbreyttari kennsluaðferðir á námskeiðum innan bankans
  • Öflug kynning á fræðsluframboði innan sem utan bankans
  • Undirbúningur innleiðingar á nýju rafrænu fræðsluumhverfi

Markviss þróun þekkingar með sérsniðinni fræðslu

Áhrif og ábyrgð – Stefnumiðuð stjórnendaþjálfun

Hjá Landsbankanum starfar stór hópur öflugra stjórnenda sem gegnir lykilhlutverki við innleiðingu á stefnu bankans. Landsbankinn leggur áherslu á að skapa stjórnendum hvetjandi og uppbyggjandi umgjörð þar sem hver stjórnandi fær tækifæri til að njóta sín. Fyrri hluta ársins 2017 héldu stjórnendur Landsbankans áfram í stjórnendaþjálfuninni Áhrif og ábyrgð sem hófst haustið 2016. Þjálfunin byggði á stjórnendalíkani Landsbankans sem „leiðarvísi“ um hvernig stjórnandi í bankanum á að vinna og til að styðja stjórnendur við innleiðingu á stefnu.

Um var að ræða tvö námskeið auk þess sem hluti hópsins sótti einstaklingsmiðaða stjórnendaráðgjöf hjá markþjálfa. Stjórnendum hefur í framhaldinu boðist að nýta sér markþjálfun áfram.

Í stjórnendaþjálfuninni var unnið að eftirfarandi

  • Að auka færni stjórnenda til að vinna í takt við stjórnendalíkan og þar með stefnu bankans
  • Að ýta undir að stjórnendur axli ábyrgð á eigin þróun og árangri
  • Að gefa stjórnendum betri og skýrari heildarmynd af tækjum og tólum sem notuð eru til að efla og samstilla stjórnun í bankanum
  • Að efla liðsheild í stjórnendateymi bankans

Landsbankinn hefur um árabil boðið öllum sumarstarfsmönnum sem eru að hefja störf hjá bankanum í fyrsta sinn, að sækja fræðsludag sumarstarfsmanna í fræðslusetri bankans í Selvík við Álftavatn.

Fræðsludagur og þjálfun sumarstarfsmanna

Landsbankinn hefur um árabil boðið öllum sumarstarfsmönnum sem eru að hefja störf hjá bankanum í fyrsta sinn, að sækja fræðsludag í fræðslusetri bankans í Selvík við Álftavatn. Um 50 sumarstarfsmenn tóku þátt að þessu sinni en boðið var upp á fjölbreytta fræðsludagskrá þar sem blandað var saman fróðleik og skemmtun. Sumarstarfsmönnum bauðst einnig að sækja námskeið um vinnubrögð.

Fræðsla fyrir framlínustarfsmenn

Í fræðslu fyrir framlínustarfsmenn hefur verið lögð sérstök áhersla á framhaldsþjálfun fyrir 360° ráðgjafa, sérsniðna fræðslu fyrir þau útibú sem eru að fara í gegnum breytingar og CRM kerfið. Skipulagt fræðslustarf í hverju útibúi fyrir sig hefur færst í aukana og víða er markvisst farið yfir nýtt efni sem tengist vörum og vinnubrögðum á fundum með starfsmönnum. Mikil áhersla er lögð á að bjóða framlínustarfsmönnum á landsbyggðinni upp á þátttöku í fræðslu í gegnum vefútsendingu.

Vottun fjármálaráðgjafa

Landsbankinn er virkur þátttakandi í verkefninu Vottun fjármálaráðgjafa. Verkefnið er á vegum Samtaka fjármálafyrirtækja, en að því koma auk fjármálafyrirtækja, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Háskólinn á Bifröst, Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands og Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík. Markmiðið með Vottun fjármálaráðgjafa er m.a. að samræma þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem sinna fjármálaráðgjöf til einstaklinga og tryggja að fjármálaráðgjafar búi yfir nauðsynlegri þekkingu og færni í starfi. Í ár hlutu 20 starfsmenn vottun sem fjármálaráðgjafar og í árslok 2017 hafa samtals 75 starfsmenn Landsbankans hlotið slíka vottun.

Námsstyrkir

Starfsmönnum Landsbankans standa til boða styrkir til að sækja námskeið utan bankans. Árið 2017 nýttu 350 starfsmenn sér slíka styrki. Um 80 starfsmenn fengu styrk til að stunda nám samhliða starfi, s.s. til stúdentsprófs, háskólaprófs eða löggildingar.


Fræðsla í tengslum við starfslok

Námskeið um starfslok og lífeyrismál

Hjá Landsbankanum er reglulega boðið upp á starfslokanámskeið. Námskeiðið er ætlað þeim starfsmönnum sem hyggja á starfslok á næstu tveimur árum. Markmiðið er að hvetja starfsmenn til að undirbúa sig vel fyrir mikilvæg tímamót og stuðla þannig að góðri heilsu, ánægju og vellíðan þeirra á efri árum. Árið 2017 sóttu 23 starfsmenn námskeiðið. Einnig er reglulega boðið upp á námskeið um lífeyrismál fyrir starfsmenn og árið 2017 nýttu 38 starfsmenn sér það. Á námskeiðinu er fjallað sérstaklega um reglur og helstu atriði í samþykktum Lífeyrissjóðs bankamanna.

LA11 – Frammistöðumat

Síðustu ár hefur frammistöðumat verið framkvæmt í stað starfsmannaviðtala. Markmiðið með þessu er að ná fram betri frammistöðu samkvæmt bæði hlutlægum og huglægum mælikvörðum. Einnig er þetta hugsað sem aukin eftirfylgni í starfsþróun, samskiptum og stjórnendaupplýsingagjöf. Frammistöðumat er framkvæmt af næsta yfirmanni hvers starfsmanns en öllum starfsmönnum Landsbankans er boðið í frammistöðusamtal. Samtals fóru 991 starfsmenn í samtal árið 2017, sem er 93% starfsmanna.

Frammistöðumat eftir sviðum 2016  2017
Áhættustýring 93% 92%
Einstaklingssvið 93% 95%
Fjármál 89% 100%
Fyrirtækjasvið 95% 95%
Innri endurskoðun 100% 100%
Markaðir 84% 83%
Upplýsingatækni 91% 93%
Skrifstofa bankastjóra 87% 69%
Samtals hlutfall starfsmanna 91% 93%

Hlutfall starfsmanna sem fóru í frammistöðumat 2017

93%

LA12- Kynjahlutföll stjórnenda og starfsmanna

Tölfræði á við Landsbankann og framkvæmdastjóri Landsbréfa er einnig inn í tölunni um framkvæmdastjóra.

Markmið:

Tryggja að hlutfall hvors kyns í forystusveit bankans sé ekki undir 40%

Kynjahlutföll stjórnenda og starfsmanna samstæðunnar

 
Karlar
 
Konur
Framkvæmdastjóri
71%
29%
Forstöðumaður
73%
27%
Útibússtjóri/Svæðisstjóri
62%
38%
Millistjórnandi
41%
59%
Sérfræðingur með háskólamenntun
53%
47%
Sérfræðingur
42%
58%
Þjónustustjóri
14%
86%
Þjónustufulltrúi
11%
89%
Féhirðir
0%
100%
Gjaldkeri
3%
97%
Aðrir starfsmenn
26%
74%

LA13 – Hlutfall launa karla og kvenna eftir stöðugildum

Tölfræði sýnir hlutfall launa kvenna af launum karla árið 2017 eftir starfsheitum. Ekki er tekið tillit til áhrifa vegna starfsaldurs, reynslu, menntunar eða annars.

Hlutfall launa kvenna af launum karla

*Mælt innan starfseininga.

LA16 – Verklag og fjöldi ábendinga vegna mannauðsmála

Komi upp ágreiningur eða önnur atvik, sem fara þarf yfir, ber starfsmönnum að leita til næsta yfirmanns og er það hans að leysa úr málinu eða kalla til sérfræðinga Mannauðs þegar þess gerist þörf. Eigi ágreiningur rætur að rekja til samskipta starfsmanns og yfirmanns geta starfsmenn leitað beint til Mannauðs.

Tvær kvartanir um einelti bárust á árinu. Sálfræðingar voru fengnir til þess að meta aðra kvörtunina og studdi niðurstaða þeirra ekki að um einelti hafi verið að ræða. Starfsmenn Mannauðs mátu hina kvörtunina og samtöl studdu ekki að um einelti hafi verið að ræða. Einn aðili málsins snéri ekki aftur til vinnu eftir veikindaleyfi. Skoðanir leiddu af sér gagnlegar ábendingar um samstarf og samskipti aðila sem unnið var eftir og teljast málin leyst.

Ein kvörtun um kynferðislega áreitni og kynbundna mismunum barst seint á árinu og hefur úrvinnslu ekki verið lokið að fullu þegar þetta er skrifað. Gerð verður grein fyrir úrvinnslu og niðurstöðu í samfélagsskýrslu að ári.

Í bankanum starfa siðanefnd og jafnréttisnefnd og geta starfsmenn sent ábendingar beint til nefndanna ef þeir telja að aðrir starfsmenn eða bankinn sjálfur brjóti gegn ákvæðum siðasáttmála eða jafnréttisstefnu bankans. Siðanefnd og jafnréttisnefnd bárust engin mál á árinu 2017.

Félagslegir vísar

SO3 – Hlutfall og heildarfjöldi viðskiptaeininga sem greindar hafa verið með tilliti til spillingar

Regluvarsla framkvæmdi áhættumat á sviksemi og aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka á helstu starfssviðum bankans á árinu 2017. Þá var gerð greining á sviksemisáhættu einstakra deilda á árinu 2016 og 2017.

Framkvæmdastjórn samþykkti „Stefnu Landsbankans gegn mútum og spillingu“ á árinu 2017 og var stefnan í framhaldinu samþykkt af bankaráði í janúar 2018. Stefnan kveður á um viðeigandi skipulagslegar- og stjórnunarlegar ráðstafanir bankans til að draga úr hættu á mútum og spillingu í starfsemi bankans.


Reglulega eru haldin nýliðanámskeið fyrir alla nýja starfsmenn bankans þar sem farið er yfir helstu starfsreglur bankans, þ.m.t. reglur um hagsmunaárekstra og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

SO4 – Upplýsingamiðlun og þjálfun í ferlum og stefnum sem varða spillingu

Reglulega eru haldin nýliðanámskeið fyrir alla nýja starfsmenn bankans þar sem farið er yfir helstu starfsreglur bankans, þ.m.t. reglur um hagsmunaárekstra og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Bankaráð og bankastjóri fá sérstaka fræðslu við upphaf starfs sem lið í undirbúningi fyrir mat á hæfi þeirra sem framkvæmd er af Fjármálaeftirlitinu. Þá fara framkvæmdastjórar í sambærilegt hæfismat sem framkvæmt er af Regluvörslu. Stefna Landsbankans gegn mútum og spillingu tekur á ábyrgð stjórnenda hvað varðar viðeigandi fræðslu en með fræðslu skal stefnt að aukinni vitund meðal starfsmanna um ráðstafanir gegn mútum og spillingu og hvernig starfsmenn skuli bregðast við þegar grunur vaknar um mútur og spillingu.

SO5 – Viðbrögð við spillingu

Landsbankinn hefur sett sér stefnur sem eiga að styðja við aðgerðir bankans gegn mútum og spillingu, þ.á m. stefnu um hagsmunaárekstra, stefnu um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka og stefnu um hlítingaráhættu.

Í stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra er gerð grein fyrir helstu ráðstöfunum Landsbankans til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar skaði hagsmuni viðskiptavina. Sömuleiðis greinir stefnan mögulega hagsmunaárekstra sem upp geta komið milli viðskiptavina, milli viðskiptavina og bankans og innan bankans.

Landsbankinn hefur einnig sett ýmsar sérreglur til að koma í veg fyrir hagsmunaárekstra, þ.á m. reglur um aðskilnað starfssviða og aðgang að húsnæði, reglur um verðbréfaviðskipti starfsmanna, auk almennra starfsreglna sem taka á atvinnuþátttöku og stjórnarsetu starfsmanna og móttöku gjafa og boðsferða.

Í bankanum er til staðar verkferli og vinnulýsing vegna misferlis starfsmanna. Regluvarsla fær tilkynningar um misferli starfsmanna og tekur á þeim málum í samvinnu við Innri endurskoðun og Lögfræðideild.

Landsbankinn hefur einnig innleitt reglur um vernd og stuðning við þá sem ljóstra upp um misferli innan bankans (e. whistle blowing).

Reglur Landsbankans um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka mæla fyrir um helstu ráðstafanir bankans til að sporna gegn slíku, t.d. með framkvæmd áreiðanleikakönnunar á viðskiptavinum, tilkynningarskyldu vegna gruns um peningaþvætti, innri ferla, eftirlit og fræðslu fyrir þær starfseiningar bankans þar sem hætta getur verið á peningaþvætti, hagsmunaárekstrum og sviksemi.

Árlega er lagt fyrir starfsmenn bankans rafrænt próf í aðgerðum gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Umrætt próf var lagt fyrir alla starfsmenn bankans í október og var svarhlutfallið 95%.

SO7 – Samkeppnismál – aðgerðir til að efla samkeppni í viðskiptabankaþjónustu

Í mars 2013 birti Samkeppniseftirlitið Landsbankanum frummat sitt í tengslum við athugun á viðskiptaskilmálum stóru viðskiptabankanna þriggja við veitingu íbúðalána á árunum 2004-2010. Landsbankinn skilaði andsvörum sínum í júní sama ár. Í maí 2017 lauk eftirlitið athuguninni með sátt við Landsbankann sem fól í sér að bankinn réðst í aðgerðir til þess að örva samkeppni á sviði almennrar viðskiptabankaþjónustu fyrir einstaklinga og lítil fyrirtæki. Markmið sáttarinnar er að draga úr skiptikostnaði í fjármálaþjónustu, stuðla að virkara samkeppnisaðhaldi viðskiptavina og vinna gegn aðstæðum sem rennt gætu stoðum undir þögla samhæfingu á viðskiptabankamarkaði.

SO8 – Fjárhæð viðurlaga og fjöldi mála þar sem Landsbankinn hefur ekki fylgt lögum og reglum

Landsbankinn sætti ekki viðurlögum vegna brota á lögum og reglum á árinu. Á árinu 2017 voru birtar fimm gagnsæistilkynningar varðandi starfsemi Landsbankans. Þann 22. maí 2017 gerðu Fjármálaeftirlitið og Landsbankinn hf. með sér samkomulag um að ljúka með sátt máli vegna brots gegn 1. mgr. 86. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, með því að hafa láðst að tilkynna um breytingu á verulegum hlut atkvæðisréttar í N1 hf. innan lögbundins tímafrests. Sektarfjárhæðin var 11.800.000 kr. Ekki voru gerðar aðrar athugasemdir við starfsemi Landsbankans sem hafa leitt til viðurlaga.

Mannréttindi

HR4 – Fjöldi rekstrareininga og birgja sem hafa verið greindir með tilliti til þess hvort hætta sé á að brotið sé á rétti starfsmanna til kjarasamninga og þátttöku í stéttarfélögum og aðgerðir sem gripið hefur verið til til að tryggja þessi réttindi

Landsbankinn rekur einungis starfsemi á Íslandi og því er ekki talin veruleg hætta á að brotið sé á réttindum starfsmanna varðandi samningsrétt eða þátttöku í stéttarfélögum.

Ekki er heldur talin hætta á að innlendir birgjar Landsbankans brjóti gegn þessum ákvæðum en sérstök greining hefur ekki verið gerð.