Ávarp bankastjóra

Mikil vitundarvakning hefur orðið í samfélagsábyrgð fyrirtækja undanfarin ár og málaflokkurinn fær sífellt meira vægi í samfélagsumræðunni. Landsbankinn tekur samfélagsábyrgð sína alvarlega og gefur árlega út samfélagsskýrslu þar sem viðmiðum Global Reporting Initiative (GRI) er fylgt. Skýrslan gegnir einnig hlutverki framvinduskýrslu til UN Global Compact. Landsbankinn mun áfram styðja við Global Compact og fylgja viðmiðum þess.

Samfélagsstefna Landsbankans er mótuð með víðtækri aðkomu tekjusviða bankans svo að hún sé hluti af kjarnastarfseminni, lánveitingum og fjárfestingum. Þar liggja helstu umhverfisspor fjármálafyrirtækja.

Árið 2017 var Landsbankinn stofnaðili að nýjum íslenskum samtökum um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF. Landsbankinn hefur verið í fararbroddi í þessum málaflokki og skrifaði undir meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) árið 2013. Á árinu voru öryggismál á netinu einnig efld og Landsbankinn gekk í samtökin Nordic Financial CERT, samtök norrænna fjármálafyrirtækja, sem ætlað er að efla netöryggi. Aukin áhersla var einnig lögð á varnir gegn peningaþvætti og fjármögnum hryðjuverka og góður árangur náðist í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna bílaflota bankans. Það er gaman að sjá hvað vistvænum bílalánum hefur verið vel tekið en þau eru nú 11% af heildarútlánum bankans til fjármögnunar einstaklinga á bifreiðum.

Fjármálaþjónusta stendur á tímamótum og í skýrslunni er ítarlega fjallað um þær miklu breytingar sem framundan eru í kjölfar nýrra laga um greiðsluþjónustu og áhrif þeirra. Lögin marka kaflaskil í því hvernig fólk og fyrirtæki geta framkvæmt dagleg bankaviðskipti. Einnig er fjallað um nýja persónuverndarlöggjöf sem tekur gildi í ríkjum Evrópusambandsins í maí og mun sömuleiðis hafa miklar breytingar í för með sér. Einstaklingar fá betri stjórn á persónuupplýsingum sínum en gerðar eru ríkari kröfur um gagnsæi og upplýsingagjöf til einstaklinga. Landsbankinn hefur á árinu lagt mikla vinnu í að undirbúa bankann fyrir nýju löggjöfina.

Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri
Landsbankinn lítur á það sem mikilvægan hluta af samfélagsábyrgð sinni að veita fræðslu um breytingar sem þessar og áhrif þeirra á samfélagið. Á Umræðunni, frétta- og efnisveitu bankans, birtast reglulega umfjallanir og fræðsla um efnahagsmál og fjármál í víðum skilning sem eiga erindi við alla. Á árinu 2017 birtust til að mynda fjölmargar greinar og myndbönd um netöryggi og varnir og viðbrögð við netglæpum.

Meginhlutverk Landsbankans er að þjóna fjölbreyttu samfélagi og atvinnulífi og það viljum við gera í sátt við samfélagið.

Jafnrétti er eitt af lykilverkefnum samfélagsábyrgðar bankans og fjallað er ítarlega um jafnréttismál í skýrslunni. Áhersla undanfarinna ára hefur verið á að tryggja jöfn laun karla og kvenna fyrir jafn verðmæt störf og jöfn starfstækifæri. Landsbankinn var fyrstur banka á Íslandi til að hljóta gullmerki Jafnlaunaúttektar PwC árið 2015 og vinnur nú að því að fá jafnlaunavottun. Bankinn hefur það að markmiði að hlutur hvors kyns í forystusveit bankans verði aldrei minni en 40%. Bankinn efndi nýlega til samstarfs við Capacent og er hluti af verkefninu Jafnréttisvísir.

Nýlegar frásagnir kvenna undir heitinu #metoo beindu athyglinni að kynferðislegri áreitni og kynbundinni mismunum á vinnustöðum. Landsbankinn hefur kappkostað að byggja upp gott starfsumhverfi og móta jákvæða og uppbyggilega fyrirtækjamenningu. Við viljum að starfsfólk treysti sér til að segja frá erfiðum málum og hafi til þess skýran vettvang.

Til þess að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu tekur bankinn virkan þátt í fjölbreyttum samstarfsverkefnum og styður margvísleg samfélagsverkefni. Á árinu 2017 var samstarf bankans og Hinsegin daga eflt með nýjum Gleðigöngupotti og bankinn tók þátt í uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri, svo sitthvað sé nefnt. Meginhlutverk Landsbankans er að þjóna fjölbreyttu samfélagi og atvinnulífi og það viljum við gera í sátt við samfélagið. Við erum stolt af árangrinum sem bankinn hefur þegar náð í samfélagsábyrgð og stefnum ótrauð áfram.