Ábyrgar fjárfestingar

Í Landsbankanum hefur undanfarin misseri verið unnið markvisst að innleiðingu á stefnu í ábyrgum fjárfestingum til að gera bankanum kleift að samþætta samfélagsábyrgð og fjárfestingarákvarðanir. Það má segja að ábyrg fjármál hafi verið í brennidepli árið 2017 hvað varðar samfélagsábyrgð í bankanum.

Landsbankinn skrifaði undir meginreglur Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) árið 2013. Ábyrgar fjárfestingar (PRI) er aðferðafræði sem viðurkennir sérstaklega að stjórnarhættir, umhverfismál og félagsleg málefni hafa áhrif á vöxt og viðgang fyrirtækja og markaða til lengri tíma litið. Af því leiðir að það er viðeigandi fyrir fjárfesta að huga að þessum þáttum við mat og val á fjárfestingum.

Samþætting umhverfismála, samfélagsmála og góðra stjórnarhátta við mat á fjárfestingarkostum hefur þannig jákvæð áhrif á ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma litið og dregur úr rekstaráhættu. Viðskiptaumhverfið er að breytast og frammistaða í sjálfbærni og samfélagsábyrgð er farin að hafa áhrif á hvernig áhætta í fyrirtækjarekstri er metin, sem og vaxtarmöguleika fyrirtækja.

Landsbankinn vill, í gegnum samræður um samfélagsábyrgð við fyrirtæki, leggja áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir til að hagur bankans og fjárfesta verði betur tryggður til framtíðar. Starfshættir Landsbankans varðandi ábyrgar fjárfestingar byggja á virkum samræðum þar sem neikvæð skimun (útilokun) er undantekningartilvik.

Ítarleg framvinduskýrsla

Stefna Landsbankans um ábyrgar fjárfestingar er sett fram með hliðsjón af reglum UN PRI og tekur mið af reglum um áhættuvilja, stórar áhættuskuldbindingar og hámark heildaráhættu, rekstraráhættu, orðsporsáhættu, lausafjáráhættu og góða stjórnarhætti. Þau fyrirtæki sem gangast undir reglur UN PRI skuldbinda sig til að veita upplýsingar um hvernig tekið er tillit til þessara þátta í framvinduskýrslu. Landsbankinn gefur nú út slíka skýrslu til PRI í fjórða sinn en hún er ætluð fjárfestum, viðskiptavinum og hagsmunaaðilum. Uppsetning skýrslunnar byggir á sex grunnstoðum PRI og er skýrslan opinber og aðgengileg á vefsvæði PRI.

Viðbótarviðmið við greiningu fjárfestinga

Hagfræðideild Landsbankans aflar á skipulegan máta upplýsinga um starfsemi skráðra fyrirtækja með hliðsjón af sjálfbærni og samfélagsábyrgð. Um er að ræða staðlaðan, einfaldan spurningalista sem tekur á helstu þáttum samfélagsábyrgðar, umhverfismálum og jafnrétti. Með þessum spurningalista stígur Landsbankinn sín fyrstu skref við að afla upplýsinga um hvernig fyrirtæki sem skráð eru á markað haga þessum málum en svörin hafa verið gerð aðgengileg fjárfestum á vef Landsbankans. Að svo stöddu eru spurningarnar einungis til upplýsinga fyrir fjárfesta og tekur Hagfræðideildin ekki efnislega afstöðu til svaranna. Langtímastefnan er að tekið verði meira tillit til þessara þátta í tengslum við mat á fjárfestingarkostum. Markmiðið er að samfélagsábyrgð verði hluti af almennum greiningum í framtíðinni í samræmi við skuldbindingar bankans um ábyrgar fjárfestingar.


Landsbankinn stofnaðili Samtaka um ábyrgar fjárfestingar, IcelandSIF

Samtök um ábyrgar fjárfestingar á Íslandi voru stofnuð 13. nóvember 2017 og var Landsbankinn einn af 23 stofnaðilum. Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri Markaða hjá Landsbankanum, er stjórnarformaður samtakanna.

Tilgangur samtakanna er að stuðla að aukinni þekkingu og umræðu um aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga. Stofnaðilar samtakanna eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög sem fjárfesta fyrir eigin reikning eða í umboði þriðja aðila með starfsemi á Íslandi og styðja tilgang samtakanna. Á meðal stofnaðila voru ellefu lífeyrissjóðir, fjórir bankar, þrjú tryggingafélög, fjögur rekstrarfélög verðbréfasjóða og eitt eignastýringarfyrirtæki.

Samtökunum er ætlað að vera óháður vettvangur fyrir umræðu og fræðslu um ábyrgar fjárfestingar og munu því sem slík ekki taka afstöðu til álitamála er varðar umrædd málefni. Enskt heiti samtakanna er IcelandSIF (Iceland Sustainable Investment Forum).

Alþjóðleg ráðstefna PRI

Fulltrúar bankans sóttu alþjóðlega ráðstefnu PRI í Berlín haustið 2017. Um 1000 gestir sóttu ráðstefnuna sem sýndi hversu hratt áhuginn á ábyrgum fjárfestingum hefur vaxið á alþjóðavísu. Evrópulönd eru í fararbroddi í málaflokknum. Ljóst er að íslenskur markaður á mikið verk óunnið til að ná þeim árangri sem leiðandi evrópsk fjármálafyrirtæki hafa náð og lítur út fyrir að fjármálahöftin hafi haft áhrif þar á. Á meðan þau voru við líði skorti á samstarf við leiðandi aðila erlendis.

Fjárfestar gera kröfu um að fjármálafyrirtæki setji sér stefnu sem tekur á ESG-þáttum (e. environmental, social, governance) við fjárfestingar. Einnig hafa eftirlitsaðilar lagt aukna áherslu á málaflokkinn ásamt því að kauphallir hafa í auknum mæli sett fram leiðbeiningar til skráðra aðila um hvernig best sé að innleiða ESG-þætti í starfsemina. Bankinn fagnar mjög leiðbeiningum Nasdaq OMX en þær styrkja umgjörðina fyrir málaflokkinn.

Þroskaferli fjármálafyrirtækja í samfélagsábyrgð

Landsbankinn hefur sett sér það markmið að samþætta samfélagslega ábyrgð í alla starfsemina og unnið er markvisst að því. Bankinn hefur lært margt af innleiðingu samfélagsstefnunnar undanfarin ár.

Þegar kemur að þroskaferli fyrirtækja í samfélagsábyrgð vega oft umhverfis- og loftslagsmál þungt í upphafi. Umhverfismálin eru einföldust og opna dyrnar fyrir samfélagsábyrgðina. Fyrstu skrefin eru iðulega að draga úr auðlindanotkun í vinnurýminu. Gott dæmi er að draga úr pappírsnotkun. Landsbankinn byrjaði á því að gera það og dró úr auðlindanotkun með aðgerðum á borð við Svansvottað mötuneyti, vistvænni bílaflota, samgöngusamningum við starfsfólk og með því að bjóða upp á vistvæn bílalán, svo eitthvað sé nefnt. Landsbankinn er stofnfélagi í Festu og gerðist aðili að loftslagssamkomulagi Reykjavíkurborgar og Festu árið 2015.

Helstu umhverfisspor fjármálastofnana markast í gegnum lánveitingar og fjárfestingar. Það skiptir því miklu máli að samþætta samfélagsábyrgðina kjarnastarfseminni, þ.e. lánveitingar og fjárfestingar. Þegar lengra er komið í aðlögun og þroskaferli fjármálafyrirtækja í samfélagsábyrgð festast slíkir þættir enn frekar í sessi í rekstrinum og þegar komið er að samþættingu þá er samfélagsábyrgð orðinn hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækja. Það þýðir að horft er til umhverfis- og samfélagsmála í allri ákvarðanatöku og vöru og þjónustuframboð taka þá í auknum mæli mið af samfélagsábyrgð. Langtímatrúverðugleiki næst þegar samfélagsábyrgðin er innleidd í daglega starfsemi, útlán og fjárfestingar.

Margar áskoranir

Ef horft er til helstu áskorana sem fjármálakerfið stendur frammi fyrir varðandi umhverfismál þá er ljóst að verðmæti eigna og mat á þeim hefur breyst að undanförnu. Gott dæmi er meðal annars fjárfestingar í vinnslu jarðefnaeldsneytis. Það er því mikilvægt að endurskoða mælikvarða í fjárfestingum og lánveitingum. Það þarf að setja inn nýja mælikvarða sem greina áhrif reksturs fyrirtækja á umhverfið og loftslagið og þá mögulegu áhættu sem falist getur í starfsemi viðkomandi félags. Laga- og regluverkið hefur verið að þróast í þessa átt. Evrópusambandið hefur gefið út tilskipanir og lög voru sett á Alþingi á síðasta ári sem stuðla meðal annars að aukinni skýrslugjöf fyrirtækja er varðar samfélagslega ábyrgð.

Kauphallir víðs vegar um heim hafa sett fram viðmið eða beinlínis kröfur á útgefendur um upplýsingar varðandi umhverfis-, samfélagsmál og stjórnarhætti. Kauphöllin á Íslandi setti á síðasta ári fram 33 viðmið fyrir útgefendur til að vinna eftir og þar af eru um 10 viðmið sem fjalla um umhverfið.

Þá má nefna að framundan eru töluverðar fjárfestingar í innviðum bæði í opinbera geiranum og einkageiranum til að uppfylla Parísarsamkomulagið og ljóst að fjármálageirinn og fjárfestar spila stórt hlutverk í þeim efnum. Undanfarið hefur orðið töluverð viðhorfsbreyting innan fjármálageirans varðandi þessi málefni og er ástæða til að líta björtum augum á að fjármálageirinn tileinki sér verklag sem umhverfið nýtur góðs af.

Helstu umhverfisspor fjármálastofnana markast í gegnum lánveitingar og fjárfestingar.