Blábankinn

Landsbankinn tekur þátt í uppbyggingu samfélagsmiðstöðvarinnar Blábanka á Þingeyri. Markmið verkefnisins er að koma á fót þjónustu- og nýsköpunarmiðstöð á staðnum og efla byggðina á Þingeyri.

Haft er að leiðarljósi að koma á fót samfélagi nýsköpunar þar sem frumkvöðlum og skapandi einstaklingum gefst tækifæri til að hittast og efna til samstarfs. Blábanki er tilraunaverkefni unnið í nánu samstarfi við íbúa og vonast er til að samfélagsmiðstöðin geti orðið fyrirmynd samskonar kjarna annars staðar á landsbyggðinni.

Blábanki er samvinnuverkefni Ísafjarðarbæjar, Nýsköpunarmiðstöðvar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Vestinvest ehf., Simbahallarinnar ehf. og Landsbankans, og er til húsa að Fjarðargötu 2, þar sem útibú Landsbankans var áður.

Fjölbreytt starfsemi

Blábankinn hóf formlega starfsemi sína þann 20. september 2017 og mikil þátttaka hefur verið í starfinu, bæði frá heimafólki og gestum í Dýrafirði. Haldnir hafa verið yfir 30 viðburðir, námskeið, fundir, kynningar, tónleikar, sýningar, bókaupplestur og hádegishugleiðsla svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendur hafa verið rúmlega 400. Í Blábankanum er bankaþjónusta, tölvuaðstaða og hægt er að panta efni úr safnkosti Bókasafnsins á Ísafirði. Þá er hægt að leigja þar vinnuaðstöðu til lengri eða skemmri tíma. Starfsmaður samfélagsmiðstöðvarinnar veitir gjaldkeraþjónustu fyrir hönd Landsbankans tvisvar sinnum í viku og aðstoðar viðskiptavini við að nýta sjálfsafgreiðslulausnir bankans á opnunartíma miðstöðvarinnar.

Innan veggja Blábankans fer fram verkstjórn á tveimur nýsköpunarverkefnum undir merkjum Karolina Fund. Annað verkefnið er stutt af Tækniþróunarsjóði og miðar að því að nýta gervigreind við fjármálatækni. Hitt er rafrænt lýðræðisverkefni að frumkvæði finnskra stjórnvalda. Sérfræðingar og doktorsnemar á sviði hópfjármögnunar, vélnáms, forritunar og markaðssetningar hafa dvalið í Blábankanum í tengslum við þessi verkefni. Arkitektinn Yasuaki Tanago hefur undanfarið unnið verkefni sem lýtur að því að nýta reynslu Japana af byggðamálum dreifðari byggða á Þingeyri. Þá hefur FabLab á Ísafirði unnið með Blábankanum við að setja upp sköpunarsmiðju og m.a. staðið fyrir kynningu á þrívíddarprentun.

Fyrir liggur aukin samvinna við Fræðslumiðstöð Vestfjarða en í vor hefst íslenskunámskeið fyrir nýbúa og síðar á árinu námskeið í tölvulæsi fyrir eldri borgara. Blábankinn hefur verið í samstarfi við Íbúasamtök Þingeyrar og stutt við valin verkefni á þeirra vegum, en einnig standa vonir um góða samvinnu við verkefni Byggðastofnunnar, Brothættar byggðir, sem verið er að setja af stað á Þingeyri um þessar mundir.

Margt framundan

Á vormánuðum mun Blábankinn standa fyrir þriggja vikna sköpunarhraðli (e. accelerator) þar sem valdir einstaklingar eða hópar koma saman á Þingeyri og vinna að verkefnum sínum undir leiðsögn leiðbeinenda. Hraðallinn mun einnig bjóða upp á þrjú helgarnámskeið sem verða jafnt opin þátttakendum hraðalsins sem og öðrum sprotafyrirtækjum og skapandi einstaklingum á Vestfjörðum. Hraðallinn er styrktur af Uppbyggingarsjóði Fjórðungssambands Vestfjarða.

Ekki hagnaðarsjónarmið

Verkefnið er ekki rekið út frá hagnaðarsjónarmiði, heldur er eingöngu leitast við að ná inn tekjum fyrir kostnaði og markmiðið er að efla byggðina á Þingeyri og þar um kring. Aðkoma bankans að verkefninu er í formi afnota til 5 ára á húsnæði í eigu bankans á Þingeyri sem áður hýsti afgreiðslu bankans. Leiga er ekki innheimt og mun bankinn sjá um rekstrarkostnað húsnæðisins. Á móti annast miðstöðin gjaldkeraþjónustu fyrir bankann þannig að starfsmaður stofnunarinnar var ráðinn inn til bankans í hlutastarf til að sinna þjónustunni.