Bankinn vill vera hreyfiafl í samfélaginu með því að eiga frumkvæði að samstarfi við fyrirtæki, stofnanir og samtök um þróun á atvinnuháttum og innviðum sem stuðla að aukinni sjálfbærni íslensks atvinnulífs og samfélags. Markmiðið er að tækifæri Íslands í þessu sambandi verði nýtt með sem bestum hætti fyrir land og þjóð til framtíðar. Saman sköpum við ný viðskiptatækifæri með áherslu á sjálfbærni.
Stefna Landsbankans er að vera til fyrirmyndar og vera traustur samherji í fjármálum. Við ætlum að vera í fremstu röð hvað varðar samfélagsábyrgð fyrirtækja á Íslandi.
Í eigandastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki segir að fjármálafyrirtæki skuli marka sér stefnu í umhverfismálum, um sjálfbæra þróun og samfélagslega ábyrgð. Í samræmi við eigandastefnuna hefur Landsbankinn verið virkur þátttakandi í starfi Global Compact, er aðili að verkefni Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (UN PRI) og gefur árlega út samfélagsskýrslu í samræmi við viðmið Global Reporting Initiative (GRI). Landsbankinn vill vera hreyfiafl í samfélaginu og vinna með öðrum að samfélagsábyrgð.
Samfélagsstefna Landsbankans var samþykkt árið 2011. Eftir mikla stefnumótunarvinnu í samfélagsábyrgð var ný stefna kynnt í mars 2015 og hefur hún verið í stöðugri þróun síðan. Samfélagsstefna bankans er mótuð með víðtækri aðkomu tekjusviða bankans til að tryggja að hún sé hluti af kjarnastarfseminni.
Bankinn hefur náð töluverðum árangri við að samþætta samfélagsábyrgð starfsemi sinni og hefur áherslan verið á innra starf, s.s. umhverfisvottun, jafnlaunavottun, loftslagsmál, stjórnarhætti, vistvænar samgöngur og upplýsingagjöf, eins og samfélagsvísar þessarar skýrslu sýna. Á síðustu árum hefur aukin áhersla verið lögð á samþættingu samfélagsábyrgðar í vöruframboði bankans, ráðgjöf, fjárfestingum og lánveitingum. Samfélagsstefna bankans á að endurspegla það viðhorf að skýr stefna og markmið í samfélagsábyrgð hafi jákvæð áhrif á útlán og ávöxtun fjárfestinga til lengri tíma og dragi úr rekstraráhættu.
Stefnumörkun bankans, þar með talið í samfélagsábyrgð, liggur hjá framkvæmdastjórn og bankaráði Landsbankans. Fram til ársins 2015 voru málefni samfélagsábyrgðar á höndum sérfræðings í samfélagsábyrgð. Sú staða var lögð niður í tengslum við stefnumótunarvinnu bankans árið 2015 og nú ber hvert einstakt svið bankans ábyrgð á að skilgreina verkefni samfélagsábyrgðar í sinni starfsemi og innleiða þau í samræmi við stefnu bankans. Þetta var gert til að samþætta samfélagsábyrgðina kjarnastarfsemi bankans.
Í dag eru samfélagsleg verkefni sem tilheyra aðgerðaáætlun til ársins 2020 unnin af þverfaglegu teymi sem í eru fulltrúar allra sviða. Verkefnastjóri samfélagsábyrgðar leiðir vinnuna og hefur eftirlit með framvindu verkefna. Stýrihópur samfélagsábyrgðar fjallar mánaðarlega um samfélagsábyrgð, auk þess sem hún er til umfjöllunar hjá Framtíðarnefnd bankaráðs.
Við ætlum að vera til fyrirmyndar í stjórnarháttum og fylgja leiðbeinandi reglum Kauphallarinnar, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins þar um. Sjá nánar: http://www.stjornarhaettir.com/fyrirmyndarfyrirtaeki